Hagnaður Landsbréfa 556 milljónir króna á fyrri helmingi ársins 2017
Landsbréf hf. hafa í dag birt árshlutareikning sinn vegna rekstrar á fyrri hluta ársins 2017. Hreinar rekstrartekjur námu 1.135 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2017, en námu 828 milljónum króna á sama tímabili á árinu 2016. Hagnaður eftir skatta af rekstri á fyrri hluta ársins nam 556 milljónum króna, samanborið við 291 milljón króna hagnað á sama tíma á síðasta ári. Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam 3.206 milljónum króna og eiginfjárhlutfall reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var 111,86%, en þetta hlutfall má ekki vera undir 8%. Í lok júní áttu um 13 þúsund einstaklingar og lögaðilar fjármuni í sjóðum í stýringu Landsbréfa og voru eignir í stýringu um 157 milljarðar króna.
Landsbréf eru rekstrarfélag verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, auk þess sem félagið hefur starfsleyfi til eignastýringar og fjárfestingaráðgjafar.
Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa segir:
„Rekstur Landsbréfa hefur gengið vel það sem af er ári. Sjóðaframboð félagsins er fjölbreytt og er þar að finna sjóði sem henta flestum fjárfestum. Ánægjulegt er að sjá stöðuga fjölgun þeirra sem eru í reglulegum sparnaði í sjóðum félagsins. Efnahagsástandið á Íslandi er gott um þessar mundir og forsendur til staðar fyrir góðri ávöxtun á komandi misserum. Landsbréf eru í fararbroddi á íslenskum fjármálamarkaði og hafa sjóðir félagsins á liðnum misserum almennt skilað fjárfestum góðri ávöxtun. Landsbréf munu halda áfram að leggja metnað sinn í að stýra þeim fjármunum sem félaginu er treyst fyrir á öruggan og markvissan hátt í þágu sjóðfélaga.
Frekari upplýsingar veitir Helgi Þór Arason framkvæmdastjóri Landsbréfa í síma 410 2500.