Landsbréf hf. hafa birt ársreikning vegna reksturs ársins 2023. Helstu niðurstöður eru þessar:
- Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 1.035 milljónum króna eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 814 milljónir á árinu 2022.
- Hreinar rekstrartekjur námu 2.405 milljónum króna á árinu 2023, samanborið við 2.019 milljónir króna á árinu 2022.
- Eigið fé í árslok 2023 var 4.118 milljónir króna samanborið við 3.783 milljónir króna í árslok 2022.
- Í lok árs voru eignir í stýringu samtals um 472 milljarðar króna samanborið við 456 milljarða króna árið áður.
- Í lok árs voru 21 stöðugildi í Landsbréfum, en ársverkin voru 21,7.
Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa:
„Árið 2023 var farsælt í rekstri Landsbréfa og sjóða þess, þrátt fyrir að mörgu leyti krefjandi aðstæður á mörkuðum og þá sérstaklega á innlendum hlutabréfamarkaði. Árið 2023 einkenndist af hárri verðbólgu og hækkandi vaxtastigi, sem endurspeglaði öðrum þræði mikinn kraft í íslenska hagkerfinu. Það voru og eru enn krefjandi tímar í hagstjórn hér á landi og mikilvægt að þeir sem völdin hafa taki ábyrg skref í átt að áframhaldandi hagsæld. Nýgerðir kjarasamningar, lækkandi verðbólga og væntingar um að vaxtalækkunarferli sé að hefjast styður þá skoðun mína að hægt sé að horfa björtum augum til framtíðar. Við hjá Landsbréfum tökum alvarlega það hlutverk að ávaxta sparifé landsmanna á ábyrgan hátt og erum þakklát fyrir það traust sem þúsundir sjóðafélaga hafa sýnt Landsbréfum.“