Sérhæfðar fjárfestingar

Landsbréf reka fjölbreytt úrval sérhæfðra sjóða sem ekki eru markaðssettir til almennra fjárfesta. Þessir sjóðir eru ýmist samlagshlutafélög (slhf.) eða hlutdeildarsjóðir (hs.) og reknir samkvæmt lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Með sjóðarekstri sínum eru Landsbréf hreyfiafl sem brúar bilið milli sparnaðar og fjármögnunar með virkri eignastýringu. Sjóðaframboð félagsins er með því fjölbreyttasta sem þekkist hér á landi.

Framtakssjóðir

Landsbréf hafa fyrst og fremst beint sjónum sínum að íslensku atvinnulífi í rekstri framtakssjóða sinna og eru í fararbroddi í rekstri framtakssjóða hér á landi. Framtakssjóðir Landsbréfa hafa á undanförunum árum fjárfest með góðum árangri sem umbreytingar- og áhrifafjárfestir í innlendum fyrirtækjum. Reyndir sérfræðingar sérhæfðra fjárfestinga Landsbréfa setjast þá oftast í stjórnir félaga og vinna með stjórnendateymi fyrirtækjanna að aukinni verðmæta- og virðisaukningu þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í. Sjóðirnir eru lokaðir fagfjárfestasjóðir.

Vísisjóðir

Rekstur vísisjóða Landsbréfa fer fram í samstarfi við Brunn Ventures GP ehf. og sérhæft teymi hjá því félagi, sem er jafnframt ábyrgðaraðili sjóðanna. Sjóðirnir eru leiðandi á sviði nýsköpunarfjárfestinga hér á landi. Sjóðirnir eru lokaðir fagfjárfestasjóðir.

Fjármögnunar- og veðskuldabréfasjóðir

Landsbréf reka fjármögnunar- og veðskuldabréfasjóði sem eru annars vegar veðskuldabréfasjóðir sem fjárfesta í skuldabréfum tryggðum með veðum í fasteignum og hins vegar sérhæfðir fjármögnunarsjóðir sem koma að sérsniðnum fjármögnunarlausnum fyrir fyrirtæki og félagasamtök. Sjóðirnir eru lokaðir fagfjárfestasjóðir.

Vogaðir sjóðir

Landsbréf reka nokkra vogaða hlutdeildardeildarsjóði sem fjárfesta bæði í hlutabréfum og skuldabréfum. Sjóðirnir eru opnir en standa eingöngu til boða fagfjárfestum og þeim sem gengið hafa í gegnum tilhlýðileikamat.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur