Landsbréf leggja áherslu á að uppfylla lagalegar kröfur SFDR en um leið upplýsa sjóðfélaga sína um hvernig sjóðir í rekstri félagsins eru skilgreindir með reglubundnum hætti. Allir verðbréfasjóðir Landsbréfa eru í dag flokkaðir sem 6. gr. sjóðir og sama gildir um alla sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta nema Landsbréf – Eignadreifing sjálfbær hs. sem er flokkaður sem 8. gr. sjóður. Þó flestir sjóðir séu þannig flokkaðir sem 6. gr. sjóðir þá hafa sjónarmið um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar þýðingu við fjárfestingaákvarðanir og samkvæmt stefnu Landsbréfa um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærniáhættu ber að taka tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta þegar tekin er ákvörðun um fjárfestingar. Í ákveðnum undantekningartilvikum veitir fjárfestingastefna sjóða ekki svigrúm til að taka sjálfbærniþætti sérstaklega inn í fjárfestingatökuferli og koma slíkir þættir þá ekki til skoðunar. Dæmi um slíkt eru vísitölusjóðir sem eingöngu fjárfesta í hlutabréfum sem mynda ákveðna vísitölu, en þar hefur sjóðstjóri ekki val um neina aðra útgefendur og þarf því að sætta sig við stöðu útgefendanna í sjálfbærnimálum. Í öðrum tilvikum þar sem val er til staðar ber að taka tillit til sjálfbærniþátta.
Með stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærniáhættu hafa Landsbréf skilgreint hvernig sjálfbærniáhætta er samþætt í ákvarðanatökuferli fjárfestinga (3. grein SFDR). Sjálfbærniáhætta er skilgreind sem atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á verðmæti fjárfestinga. Til að takmarka neikvæðar afleiðingar af sjálfbærniáhættu eru fjárfestingarkostir metnir út frá sjálfbærni og umhverfislegir, félagslegir þættir og stjórnarhættir skoðaðir sérstaklega. Loftslagsáhætta er metin í eignasöfnum sjóða.
Sem stendur er það mat Landsbréfa að raunlæg loftslagsáhætta í eignasöfnum sjóða sé tiltölulega lág til skamms tíma litið en líklegt er að hún aukist til meðallangs og langs tíma ef aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum ganga hægar en áætlanir gera ráð fyrir eða að þær hafi ekki tilætluð áhrif. Umbreytingaráhætta er meira aðkallandi til skamms og meðallangs tíma þar sem verið er að innleiða nýjar yfirgripsmiklar reglugerðir á alþjóðavísu á sviði sjálfbærni og loftslagsmála sem gætu haft áhrif á fjármálamarkaði og verðmæti eignasafna sjóða. Viðhorf viðskiptavina til fjárfestinga gæti breyst og ef Landsbréf gæta ekki að vöruframboði sínu gætu eignir í stýringu minnkað. Eftirstæð áhætta vegna hlítni Landsbréfa við lög og reglur er lúta að sjálfbærni er talin vera í meðallagi þar sem að ferlar og innra regluverk er til staðar innan félagsins til þess að lágmarka hlítniáhættu sem hefur myndast vegna umfangsmikils regluverks á sviði sjálfbærni, skorts á gögnum frá útgefendum fjármálagerninga er lúta að sjálfbærnimælingum og nýjum kröfum sem gerðar eru til rekstraraðila sjóða. Búist er við að hlítniáhættan muni minnka til lengri tíma litið eftir því sem fram vindur. Áhættustýring Landsbréfa fylgist með sjálfbærniáhættu í rekstri sjóða Landsbréfa og gerir grein fyrir henni og frávikum henni tengdum í skýrslugjöf sinni.
Stefna Landsbréfa um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærniáhættu