Horn IV slhf., sem er framtakssjóður í rekstri Landsbréfa hf., hefur samið um kaup á 45% hlut í REA ehf. sem á íslensku flugafgreiðslufyrirtækin Airport Associates og SouthAir. Með kaupunum verður Horn IV stærsti einstaki hluthafi félagsins. Fyrirtækin hafa í yfir 25 ár boðið upp á flugtengda þjónustu fyrir flugrekendur á Keflavíkurflugvelli og eru með samninga við mörg af þeim flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
REA ehf. er móðurfélag Airport Associates og SouthAir sem hvort á sínu sviði bjóða upp á flugtengda þjónustu. Hjá félögunum starfa í dag um 450 starfsmenn alls.
Airport Associates rekur almenna flugafgreiðsluþjónustu fyrir flugfélög sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í reglulegu áætlunar- eða leiguflugi. Farþegaþjónusta er veitt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem starfsfólk sinnir innritun, byrðingu ásamt tapað/fundið þjónustu. Á flughlaði sinnir starfsfólk hleðslu og afhleðslu flugfara, afísingu, ræstingu og öryggisleit. Fyrirtækið starfrækir jafnframt fraktmiðstöð ásamt því að reka verkstæði og mötuneyti.
SouthAir rekur sérhæfða flugafgreiðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli en félagið starfar ekki innan Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Meginstarfsemi SouthAir er svokölluð „FBO“ þjónusta sem felur í sér alhliða þjónustu við einkaflugvélar, ferju- og sjúkraflug ásamt því að þjónusta hervélar. Þá starfrækir fyrirtækið „Private Lounge“.
Horn IV er 15 milljarða framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem hóf starfsemi árið 2021 og fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum. Kaupin í REA ehf. eru fjórða fjárfesting sjóðsins.
„Kaup Horns IV á kjölfestuhlut í REA ehf. er afar ánægjuleg staðfesting á þeirri vegferð sem eigendur og stjórnendur hafa unnið að frá stofnun félagsins. Við höfum alla tíð lagt mikla áherslu á tækni-, öryggis- og gæðamál í góðu samstarfi við þau fjölmörgu flugfélög sem við veitum þjónustu. Félagið nýtur trausts og hefur frá stofnun stuðlað að jákvæðri samkeppni á flugþjónustumarkaði. Við horfum því með björtum augum til framtíðar og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar með nýjum hluthöfum“, segja Sigþór Kristinn Skúlason forstjóri og Skúli Skúlason stjórnarformaður.
„Fyrirtækin eru innviðafélög og mikilvægur hlekkur í starfsemi Keflavíkurflugvallar. Félögin eru vel rekin með öfluga stjórnendur og afburða starfsfólk á öllum sviðum sem mun nýtast vel á vaxandi markaði sem er nátengdur íslenskri ferðaþjónustu. Við erum full tilhlökkunar að fá að koma að áframhaldandi uppbyggingu félaganna sem búa yfir sterkum innviðum og áratuga reynslu núverandi eigenda“, segja fjárfestingastjórar Horns IV.
Eldjárn Capital, Grant Thornton, EY og Jónatansson & Co Lögfræðistofa voru ráðgjafar seljenda. Akrar Consult og BBA//Fjeldco voru ráðgjafar kaupanda.