Fjármálaeftirlitið staðfestir breyttar reglur fyrir Veltubréf
Fjármálaeftirlitið hefur staðfest breyttar reglur fyrir fjárfestingasjóðinn Landsbréf-Veltubréf. Reglubreytingin er gerð með hliðsjón af fækkun á fjárfestingarkostum á markaði með peningamarkaðsgerninga og með það að markmiði að auðvelda stýringu á lausafjáráhættu sjóðsins.
Breytingarnar felast í eftirtöldu:
- Rýmkaðar eru heimildir til fjárfestinga í skuldabréfum með ábyrgð ríkis, sveitarfélaga og fjármálafyrirtækja.
- Hámarkslíftími skuldabréfa og peningamarkaðsgerninga með ábyrgð ríkis hefur verið afnuminn, enda fari meðallíftími sjóðsins ekki yfir 180 daga.
- Í nýjum reglum sjóðsins er skerpt á þeim tegundum afleiðna sem sjóðnum er heimilt að fjárfesta í en heimildum sjóðsins til slíkra fjárfestinga hefur ekki verið breytt.
Hlutdeildarskírteinishöfum hefur verið sent bréf þar sem nánari grein er gerð fyrir breytingunum.
Nánari upplýsingar um reglubreytingarnar má nálgast hjá Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf Landsbankans í síma 410 4040 eða í gegnum netfangið fjarmalaradgjof@landsbankinn.is.