Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Helstu áhættuþættir fjárfestingar í kauphallarsjóðum

Kauphallarsjóður (e. Exchange Traded Fund, ETF) er sjóður um sameiginlega fjárfestingu sem skráður er í kauphöll og þar fara viðskipti með hlutdeildarskírteini að mestu leyti fram. Landsbréf reka einn kauphallarsjóð og eru viðskipti með hlutdeildarskírteini sjóðsins í kauphöllinni á Íslandi (eftirmarkaður) og er virk viðskiptavakt með hlutdeildarskírteinin.

Kauphallarsjóður Landsbréfa (Landsbréf LEQ UCITS ETF) er verðbréfasjóður sem starfar samkvæmt lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Sjóðurinn er jafnframt vísitölusjóður og stýrt með óvirkum hætti, þar sem fjárfest er eingöngu í þeim hlutabréfum sem mynda kauphallarvísitöluna OMXI15CAP, í sömu hlutföllum og hún er samsett á hverjum tíma. Í kauphallarvísitölunni eru þau hlutabréf sem eru með mestan seljanleika á hverjum tíma.

Hlutabréf eru í eðli sínu áhættusöm fjárfesting og afkoma þeirra félaga sem sjóðurinn á hlutabréf í hefur bein áhrif á gengi hans. Sveiflur í gengi sjóðsins geta því verið miklar vegna verðbreytinga á þeim hlutabréfum sem sjóðurinn hefur fjárfest í. Árangur og ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma ræðst af arðgreiðslum og af verðbreytingum undirliggjandi eigna. Fjárfesting í hlutabréfasjóðum felur ætíð í sér áhættu. Fjárfesting í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er þó að jafnaði áhættuminni en þegar keyptir eru einstakir fjármálagerningar, þar sem hver sjóður dreifir áhættu fjárfesta með kaupum í fleiri en einum flokki fjármálagerninga. Staða og afdrif rekstrarfélagsins sem rekur sjóðinn hefur ekki bein áhrif á virði hans þar sem efnahagur sjóðsins er aðskilinn efnahag rekstrarfélagsins.

Hafa verður í huga að gengi sjóða getur bæði hækkað og lækkað og fjárfestar kunna að fá minna til baka en upphaflega var fjárfest fyrir, ávöxtun í fortíð er ekki vísbending um ávöxtun í framtíð. Sveiflur í gengi hlutabréfasjóða geta verið miklar vegna sveiflna í gengi þeirra eigna sem sjóðirnir fjárfesta í. Nauðsynlegt er að fjárfestar kynni sér vel þá áhættu sem fólgin er í því að fjárfesta í hlutabréfasjóðum, lykilupplýsingar og útboðslýsingar sjóða áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem hafa þarf í huga áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Upptalningin er þó ekki tæmandi fyrir þá þætti sem geta haft áhrif á gengi hlutabréfasjóða.

Markaðsáhætta fylgir öllum fjármálagerningum. Hana má skilgreina sem hættuna á tapi vegna sveiflna á markaðsvirði eigna sem rekja má til breytinga á vöxtum, gengi gjaldmiðla, hlutabréfa- og hrávöruverði eða lánshæfi útgefenda. Markaðsáhættu er öllu jöfnu ekki hægt að eyða með dreifðu eignasafni. Undir markaðsáhættu falla þannig til dæmis gengisáhætta og vaxtaáhætta.

  • Gengisáhætta er áhætta sem felst í því að gengi verðbréfa og gjaldmiðla getur sveiflast með ófyrirsjáanlegum hætti og haft þannig áhrif á ávöxtun í hlutabréfasjóðum.
  • Gjaldmiðlaáhætta er í hlutabréfasjóðum, sum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í eru með stóran hluta sjóðstreymis síns í erlendum gjaldeyri. Sveiflur í gengi gjaldmiðla geta því haft áhrif á hagnað þeirra og þannig leitt til hækkunar eða lækkunar á gengi hlutabréfa í viðkomandi fyrirtæki.

Áhætta tengd vísitölu er í sjóðnum þar sem fjárfest er aðeins í þeim hlutabréfum sem mynda OMXI15CAP vísitöluna eins og hún er samsett á hverjum tíma og fylgir sjóðurinn frammistöðu vísitölunnar sem hefur bein áhrif á gengi hans til lækkunar eða hækkunar.

Skuldaraáhætta (greiðslufallsáhætta) er til staðar í hlutabréfasjóðum. Skuldaraáhætta er sú áhætta að útgefandi verðbréfs standi ekki við skuldbindingar sínar og fari í gjaldþrot eða nauðasamninga og fjárfesting tapist því að hluta til eða að öllu leyti. Innlánakröfur geta tapast við gjaldþrot fjármálastofnunar sem sjóðurinn á innlán hjá.

Seljanleikaáhætta/lausafjáráhætta er til staðar í hlutabréfasjóðum þar sem sú staða gæti komið upp að eign seljist ekki tímanlega á ásættanlegu verði ef þess er þörf, til dæmis ef miklar innlausnir verða í sjóðnum eða ef samþjöppun eigna veldur broti á fjárfestingarstefnu. Lausafjáráhætta er því sú áhætta að of lítið laust fé sé til í sjóðum til að standa undir greiðsluskuldbindingum á hverjum tíma.

Áhætta tengd smæð markaðar eða eignatengsla útgefanda verðbréfa. Íslenskur verðbréfamarkaður er smár í sniðum og því fylgir að kaupendur og seljendur einstakra verðbréfa eru oft fáir. Af þeim sökum getur verðmyndun á markaði verið óvirkari en gerist á stærri mörkuðum. Einnig geta eignatengsl verið á milli útgefenda verðbréfa sem getur leitt til þess að greiðslufall einstakra útgefenda hafa víðtækari áhrif en annars myndi verða.

Uppgjörsáhætta er til staðar í hlutabréfasjóðum ef útgefandi eða mótaðili í viðskiptum stendur ekki við skuldbindingar sínar áður en lokauppgjör sjóðstreymis viðskipta á sér stað eða afhendir ekki fjármálagerning á réttum tíma. 

Vörsluáhætta er til staðar í hlutabréfasjóðum þar sem eignir í vörslu geta tapast vegna gjaldþrots, vanrækslu eða sviksamlegra athafna af hálfu vörsluaðila.

Rekstraráhætta fylgir rekstri sjóða og þeir gætu tapað fjármunum vegna ófullnægjandi innri ferla og mistaka í tengslum við mannauð og kerfi rekstrarfélagsins, eða vegna ytri atburða, þ.m.t. hlítingaráhætta og áhætta vegna verklags við viðskipti, miðlun, uppgjör og verðmat sem innt er af hendi fyrir sjóðinn.