Áhættumælikvarði
Áhættumælikvarði er kvarði á bilinu 1 til 7 sem ætlaður er til þess að hjálpa fjárfestum að meta áhættu verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta með tilliti til sveiflna í ávöxtun hlutdeildarskírteina slíkra sjóða.
Áhættumælikvarðinn er reiknaður samkvæmt leiðbeiningum frá Evrópska verðbréfa- og markaðseftirlitinu (e. ESMA) og byggir á staðalfráviki í vikulegum sveiflum á ávöxtun hlutdeildarskírteina síðustu 5 ára. Ef ekki er til svo löng verðsaga er fyllt upp í verðsöguna með ávöxtun viðmiðunarsjóðs sem fundin er út frá ávöxtun annarra sjóða/vísitalna með álíka eignasamsetningu og/eða hermun á ávöxtun viðmiðunarsjóðsins. Staðalfrávikið er því næst sett á ársgrundvöll og sjóðunum skipt niður í 7 flokka eftir stærð staðalfráviks.
Stig 1 á kvarðanum gefur þannig til kynna minnsta áhættu með tilliti til sveiflna í ávöxtun á meðan stig 7 á kvarðanum gefur til kynna mesta áhættu með tilliti til sveiflna í ávöxtun. Þó skal bent á að sveiflur í ávöxtun í fortíð eru ekki endilega vísbending um framtíðarsveiflur í ávöxtun og niðurstaða kvarðans fyrir einstaka sjóði getur því breyst frá einum tíma til annars.
Áhættukvarðinn er ekki mælikvarði á alla áhættu sem fylgir fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, heldur er um að ræða tölfræðilega lýsingu á sveiflum í ávöxtun verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta.
Frekari upplýsingar um áhættu tengda fjárfestingu í verðbréfasjóðum og sérhæfðum sjóðum má finna í útboðslýsingum sjóðanna.
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.